154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:35]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir yfirferð sína á þessu mikla máli. Við eigum eftir að ræða það í þaula en til að byrja með verðum við aðeins að gera okkur grein fyrir því hvað framkvæmdarvaldið ætlar sér með breytingar á 2. mgr. 36. gr. sem eiga að leysa úr seinagangi sem hefur verið látinn viðgangast í boði Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki. Hér á að leysa hann með því að taka út glufur, þ.e. möguleika fólks til að fá efnislega úrlausn sinna mála þrátt fyrir að vera í svokölluðum Dyflinnar- og verndarmálaflokki. Hér eru tekin stór skref. En svo að ég vitni nú bara í efni frumvarpsins þá kemur þar fram að aðstæður í móttökuríki verði eftir sem áður alltaf kannaðar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd og verður áfram hægt að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli hinnar svokölluðu „non-refoulement“-reglu og vísa ég til 42. gr. útlendingalaga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég má til með að spyrja: Megum við búast við því að gerðar verði einhverjar breytingar á verklagi við þessa rannsókn á aðstæðum í móttökuríkjum og ef svo er, hvernig verður það útfært í reynd?